Skódinn bilaður en sólin skín

Hæ,

Hef ekki bloggað í nokkra daga. Lá með flensu í rúmlega dag frá seinni parti sunnudagsins fram á miðjan mánudag. Leið bara hreint ekki vel. Sólrún hringdi í mig um fimmtánhundruð í gær og tilkynnti mér að Skódinn okkar góði væri bilaður. Alternatorinn er farinn í blessuðum bílnum. Nú eru góð ráð dýr og jafnvel rándýr. Sólrún er á fullu núna að finna nýjan bíl og ég er á meðan að finna út hvernig ég möndla Skódann. Við finnum út úr þessu. Hef einhvern veginn litlar áhyggjur af þessu.
Núna er ég bara orðinn hress og held að allt Skóda vesenið hafi komið mér í betri gír. Lækningamáttur bílanna er ótrúlega mikill, enda karlmenn með bílaáhuga með hraustari mönnum er það ekki. Ég ætti kannski að finna þennan áhuga hjá mér. Hef svona í gegnum tíðina ekki haft mikinn áhuga á bílum. Finnst merkilegt að þeir keyri sjálfir án þess að vera teymdir af hestum eða viðlíka, en já að öðru leyti heilla bílar mig hreint ekki neitt. Hver veit hvað gerist síðar :)

Jæja, ég ætla út í brakandi sólskinið. Þarf að fara í pappírsmál og svo ætla ég í ræktina og taka í fyrsta skiptið í of langan tíma heila æfingu. Hef verið að mæta svona bara rétt til að kíkja síðustu tvær vikur. Það er ekki gott.

Ég fer svo á föstudaginn til Hróarskeldu að hjálpa Ingu Freyju vinkonu og manninum hennar Palla að flytja. Þau flugu út í morgun og eru væntanlega núna búin að fljúga í tæpa tvo tíma þegar þetta er skrifað. Ég hlakka mikið til að hitta þau og gaman að þau eru loks að láta gamlan draum rætast.

sjáumst síðar,

Arnar Thor

Ummæli

Vinsælar færslur